Úlfsfar

Hér verður smá lesning og upplýsingar um fararskjótana mína, sem hafa verið nokkrir í gegnum tíðina. Þeir skipa allir ákveðinn sess í hjarta mínu.

Myndir og frekari lesning síðar.

Subaru Legacy 1800 sedan.

Þessi bíll var sá fyrsti sem ég eignaðist, kom upprunalega af Vestfjörðum. Átti hann í rétt um ár þar til ég lenti í árekstri á honum uppá Akranesi rétt eftir að ég eignaðist Undanfara.


Undanfari: Toyota 4Runner, 3l V6, árgerð 1991.

Fyrsti jeppinn sem ég eignaðist, var á 31″ dekkjum þegar ég eignaðist hann. Keypti undir hann ágætis 32″ dekk og síðar setti ég hann á 38″. Lenti í því að velta honum á leið upp að Jaka við Langjökul í Janúar 2007. Hann á ég enn og er hann staðsettur á verkstæði mínu á Akranesi og bíður þess að verða fallegur fjallajeppi á ný.

Pickup Línan: Ford Ranger 2,9l V6

Ameríski draumurinn, eða þannig. Þetta voru sennilega verstu kaup sem ég hef gert, keypti hann nánast óséðan af Selfossi skömmu eftir að ég velti Undanfara. Bremsurnar hættu fljótlega að starfa; braut framöxul við að keyra útúr götunni heima; Kúplingslögnin var eitthvað skítmixuð, og fór að leka nokkrum sinnum ásamt því að fara algjörlega í sundur; fór undan honum annað framhjólið á leið uppá ruslahauga með drasl úr skúrnum. Hann endaði daga sína á sveitabæ skammt frá Akranesi eftir að ég hafði selt hann.

Sá margliti: Toyota 4Runner 3l V6

Þessi bíll var ekki mjög merkilegur, og þó. Hann var hálfgerður skrjóður, eyddi miklu og var í tómu tjóni greyið. Hinsvegar var helgin sem ég keypti hann mjög merkileg. Bílnum fylgdi annar í varahluti, og ákvað ég að safna liðveislu til að halda norður og sækja bílinn og varahlutabílinn. Frændi kom með, Viddi, Páll og ég, ákváðum við að fara á 38″ Trooper sem frændi átti í þá daga og fengum ljáðan bílflutningavagn til að sækja hræið. Lagt var af stað rétt um 19:00 á Frjádegi og ætlunin var að hitta eiganda jeppans rétt fyrir utan Akureyri þar sem hann var í bústað, en viðkomandi átti heima rétt við Þórshöfn. Við náðum inn á Akureyri rétt fyrir miðnætti og var þá skrifað undir afsalið. Þá var nýja bílnum ekið að porti inná Akureyri þar sem varahlutabíllinn stóð. Upphófst þá mikið ævintýr að koma jeppanum uppá vagninn þar sem spilið á kerrunni var ekki virkt, en við höfðum þó verið svo forsjálir að taka keðjutalíu og spotta með okkur. Eftir talsvert bras við að koma jeppanum uppá (enda aðeins of breiður fyrir þennan vagn) hafðist það að lokum. Ákveðið var að frændi skyldi taka kerruna og ég yrði á undan, enda var hjöruliðskross í afturskaftinu orðinn svo slitinn að við vildum ekki taka áhættuna á því að hann myndi bresta á leiðinni suður. Hinsvegar gerði afar vont veður, mikill bylur, snjókoma og hálka á leiðinni uppá Holtavörðuheiðina. Þar sem frændi hafði brotið framdrif stuttu áður og var ekki á negldum börðum, líkt og jeppinn sem ég hafði nýverið keypt, var ákveðið, eftir að frændi fór næstum því útaf þegar kerran tók völdin, að ég skyldi hengja vagninn aftan í jeppan hjá mér. Mikið ofboðslega var ég feginn því að dekkin voru góð, framdrifið virkaði og að lági kassinn virkaði sem skyldi. Enda hefði ég sjálfsagt aldrei haft það yfir heiðina annars. En bölvaði því í sand og ösku hinsvegar að miðstöðin blés bara köldu… Þegar þarna var komið við sögu var klukkan farin að ganga 5 um morguninn og þreyta farin að síga á mannskapinn. Það þýddi þó ekki að hika, og með ágætis samvinnu náðum við að halda okkur vakandi niður í Lambhaga þar sem varahlutabíllinn skyldi vera geymdur, ákveðið var að rífa drifsköftin undan honum í leiðinni og skipta um í jeppanum, enda skaftið nánast orðið ónýtt eftir ævintýr næturinnar. Þegar ég loks kom heim þegar liðið var á daginn steinsofnaði ég í sófanum. Örlög þessa jeppa eins og margra annara, var að eftir að ég eignaðist Undanfara II, fór hann í lán til Páls og var síðar seldur í varahluti uppá Akranes.

Undanfari II: Toyota 4Runner 3l I4 TD árgerð 1993.

Þennan á ég enn, og hef átt síðan í Mars 2007. Ég keypti hann í Keflavík og var hann þá á 35″ dekkjum með 120 mm afturhásingafærslu en lítið annað búið að breyta. Síðan þá fór boltinn að rúlla, hann var settur á 38″ dekk og var þannig í tæpt ár eða þar til hann fór á 44″ vorið 2008, ásamt því að fá undir sig framhásingu úr HZJ73. Haustið 2008 var afturhásingin færð um 80 mm og var því komin í 200 mm færslu. Settur var aukatankur, toppgrind og fleiri ljós. Rétt fyrir jólin dó framstuðarinn og kastaragrindin í árbrölti á leið úr Setrinu, síðar fékk hann alvöru kastaragrind í stað stuðara og er þannig í dag. Í dag stekkur hann á milli 38″ og 44″ dekkja eftir tilefni og er minn aðal bíll. Sjá má myndir af honum í galleríinu mínu.

Mitzy: Mitsubishi Colt

Lítið um þennan að segja, fékk hann á 15.000 kr og ók á honum í rétt um hálft ár, seldi hann síðar og fór hann á betra heimili.

Alma: Nissan Almera 1,6l, 1999

Ölmu var bjargað frá bráðum dauða þegar félagi minn vantaði að losna við bílhræ sem hafði staðið fyrir utan hjá honum í hartnær ár. Hún átti að fara í pressuna og hringdi umræddur félagi í mig og spurði hvort ég gæti aðstoðað við það. Ég bauðst til að versla frekar bílinn af honum á förgunargjaldi og losa hann þar með við umstangið. Hún var með brotna framrúðu, ásamt ýmsu smávægilegu sem dytta þurfti að. Ég flutti hana uppá Akranes í skúr til föður míns og dunduðum við okkur við að skipta um framrúðuna í honum ásamt því að mála toppinn og fleira dúllerí. Ók honum svo í tæp tvö ár (rétt um 60þús km) og seldi hann að lokum í skiptum fyrir GPS tæki eftir að hjöruliður að framan hafði brotnað.

Dreyrfari: Suzuki Sidekick 1998, 1,6l

Undanfari II fór úr umferð sökum vélabilunnar vorið 2011, þar sem ég hafði nýverið selt Ölmu var ákveðið að leita að öðrum bíl til að ferðast örlítið um sumarið. Enda hafði ég lítið gert nema vinna og hjóla framan af sumri. Dreyrfari var síðan seldur til tengdapabba um 2012 og stendur sig ágætlega í hans þjónustu.

BJ60

Land Cruiser BJ60 sem ég eignaðist fyrir hálfgerða tilviljun. Er árgerð 1985 og ber þess glögg merki að aldurinn sé farinn að færast yfir. Eftir að lækur svínaði fyrir mig á leiðinni frá Setrinu inní Kerlingarfjöll gerðist ég nokkuð staðráðinn í þvi að skipta um hásingar undir Undanfara II. Þannig vildi til að Björn nokkur, sem var með okkur í ferðinni átti haugryðgaðan 60 krúser sem stóð með bilað afturdrif fyrir utan heimili hans og safnaði þar ryði. Ákvað ég þá í ferðinni að kaupa bílinn af honum og ætlaði mér að nýta í betrumbætur á Undanfara II. Síðan breyttist eitt og annað í lífi mínu og líklegast endar hann sem viðbót við Undanfar I en ekki II og Undanfari II verður að öllum líkindum látinn fara greyið, þrátt fyrir að hafa þjónað mér vel sem góður ferðafélagi undanfarin ár. BJ60 stendur eins og er útí garði hjá foreldrum mínum uppá Akranesi og bíður þess óþreyjufullur að hefja nýtt líf sem 4Runner.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *