Jólagjafir síðustu Jól.

Til þess er málið varðar,
kvörtunardeild Jólasveinsins ehf.

Efni: Jólagjafir síðustu Jól.

Undirritaður og fjölskylda vilja hér með leggja fram formlega kvörtun. Þannig er
mál með vexti að undanfarin jól hafið þið sent undirrituðum og fjölskyldu ýmsar
gjafir á meðan á Jólunum stendur, nánar tiltekið alla tólf dagana. Við erum að
sjálfsögðu afar þakklát fyrir umhyggjusemi ykkar og gjafmildi.
Það verður að segjast eins og er að síðustu jól fengum við einstaklega mikið af
óheppilegum gjöfum. Þetta hefur valdið okkur talsverðum óþægindum, á meðan
flestir nágrannar okkar hafa fengið gagnlega hluti eins og sjálfvirkar ryksugur,
ljósakrónur og afríska þjóðbúninga, þá höfum við fengið talandi páfugl, tvær dúfur, þrjú
frönsk hænsni, fjóra syngjandi þresti, fimm gullhringi (sem við kunnum þér ágætar
þakkir fyrir), sex gæsir, sjö syndandi svani sem kunna sér illa í baðkarinu, átta feitar
mjaltakonur sem verður að viðurkennast afar undarleg gjöf enda eigum við
ekkert fjós. Líkt og þetta væri ekki nóg, þá fengum við einnig níu snaróða
bumbuslagar sem héldu öllum hér í blokkinni vakandi. Daginn eftir bættust við
tíu flautuleikarar, þar af fjórir falskir og restin hélt ekki takti. Hinir ellefu dansandi álfar
bættust síðan í hópinn og var stanslaus ófriður fyrir veisluhöldum og ekki
minnkuðu lætin þegar tólf dansandi meyjarnar bættust í hópinn. Það verður að
segjast að þar með hafi kornið sem fyllti mælinn verið komið.
Eins og gefur að skilja hafa talsverð óþægindi hlotist af þessu, meðal annars
gríðarlega hár reikningur fyrir, annars vegar róandi lyfjum fyrir aldraða móður
undirritaðs sem og þeim kostnaði sem hlaust af því þegar dýrin fóru að slást
innbyrðis. Sé ekki minnst á það umstang sem fólst í því að koma gjöfunum í
fóstur annarstaðar þar sem gagnsemin var meiri og friður gæti komist á ný í
blokkinni, og hægt væri að nota baðherbergið á ný, enda héldu svanirnir því í
gíslingu. Eftir allt sem hafði gengið á jaðraði við alvarlegum deilum milli
undirritaðs og nágranna. Þá er óþarfi að minnast á öll þau skipti sem kalla hefur
þurft til lögreglu vegna deilna á milli bumbuslagaranna og álfanna.
Án þess að vilja hljóma eins og hinn argasti vanþakkláti durtur, þá vill
undirritaður vinsamlegast biðja ykkur um að velja næstu gjafir af vel ígrunduðu
máli ellegar sleppa þeim alfarið.
Virðingarfyllst og með óskum um gleðileg Jól,
Samúel Þór Hjaltalín Guðjónsson

—–

Forsagan að þessu bréfi er sú að í íslenskuáfanga við Háskólann í Reykjavík áttum við að skrifa formlegt bréf. Við máttum velja milli þess að skrifa umsókn um geitahald í bakgarðinum okkar, mótmælabréf við geitahaldi nágranna eða kvörtunarbréf yfir lélegri þjónustu eða rangri afgreiðslu.

This entry was posted in Almennt and tagged , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *