Ég vil taka það fram hér í byrjun pistilsins að eftirfarandi skrif spegla mína eigin skoðun á málefnunum, en ekki stjórn ferðaklúbbsins eða ferðaklúbbsins í heild né ferlaráðinu.
Eitt af stórmálum Ferðaklúbbsins síðustu ár hefur verið að mæla slóða á hálendinu í samvinnu við Landmælingar Íslands.
Þessu verkefni var komið á laggirnar fyrir annsi mörgum árum af F4x4, Umhverfisráðuneytinu og LMÍ. Ég ætla ekki að fara útí sögu þessa samstarfs eða hvernig mælingar fóru fram eða neitt þess háttar. Mögulega síðar, en ekki að sinni. Ég ætla aðeins að fjalla um tilganginn og áhrif þess á samfélagið frá mínu sjónarhorni, sem og hvað er ferill?
Eins og sumir hverjir vita höfum við í F4x4 barist mikið fyrir ferðafrelsi okkar félagsmanna, sem og alls almennings sem hefur áhuga á ferðalögum yfir höfuð (og raunar einnig þeirra sem ekki gera það). Meðal annars með mótmælum, kvörtunum til umboðsmanns alþingis og fleiri aðgerðum í gegnum tíðina. Ástæðan er einföld, það eru örfáir hagsmunahópar sem hafa komist á náðir hins opinbera sem ætla sér að eigna sér hálendið og breyta því í ferðamannaparadís þar sem þeir geta setið einir við kökuna, og hirt gróðann, en skilið hinn almenna ferðamann eftir útí kuldanum, eða þannig birtist þetta okkur hinum almenna leikmanni.
Margar af okkar aðgerðum hafa leitt af sér betrumbætur í stjórnsýslunni varðandi meðferð á málefnum ferðafrelsis, en betur má ef duga skal!
Ferlaráð var sett á laggirnar á sínum tíma til að standa að mælingarverkefninu og varð til allstór gagnagrunnur sem þekur mest allt hálendið. Skipulagsvinnan á bakvið þessa ferla hefur verið gríðarleg og þar hefur fremstur í broddi fylkingar farið Jón G. Snæland, sem hefur verið frumkvöðull á þessu sviði og er mikill baráttumaður fyrir ferðafrelsi almennt.
Fyrir nokkru var tekin sú ákvörðun hjá ferlaráðinu, í samvinnu við stjórn og nefndir klúbbsins að setja ferlasafnið á netið. Ástæðan að mínu mati er helst rakin til hve lítið umhverfisráðuneytið hefur sinnt verkefninu, en gefur sér þó tímaramma sem því skal vera lokið innan, án þess að hafa neinar áætlanir um hvernig eigi að ljúka því. Það á bara að klára, sama hvað það kostar, þó það kosti slæm vinnubrögð eins og viðhöfð voru við hluta af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar.
Í stað þess að vinna málið í sameiningu og með aðkomu sem flestra hagsmunahópa, svo að sátt megi ríkja um málefnið.
Viðtal við Jón G. Snæland má sjá á frétt mbl um málið. Þar ræðir hann um ástæður þess að efnið var sett inn.
Þetta vakti að sjálfsögðu viðbrögð, eins og má sjá á umræðum á ferðafrelsis hópnum á snjáldrinu (e. facebook.com) og á vefsíðu f4x4. Ýmsir vilja meina að þarna hafi klúbburinn gengið of langt í að birta slóða, þar sem bæði eru slóðar sem ætlaðir eru til aksturs, sem og slóðar sem á að loka eða er þegar búið að loka. En þannig finnst mér einmitt kort eiga að vera. Þau eiga að sýna landið eins og það er, ekki eins og sumir hefðu helst vilja hafa það. Inn á þau má svo merkja viðkomandi slóða eða vegi sem ekki má aka, þá sem kosið væru að lítil umferð færi um og þá sem raun og veru er ætlast til að séu eknir. Nú munu margir spyrja sig, tilhvers í ósköpunum að birta slóða sem ekki má aka? Jú, það eru ýmsar ástæður. Ég ætla að lista þær helstu sem mér kemur í huga.
- Neyðaraðilar geta haft aðgang að vegakerfi sem þeir geta farið um, til að komast nær slysstað án þess að valda endilega raski á viðkomandi svæði. Þessir slóðar væru að öllu jöfnu lokaðir, en nýttir í slíka viðburði.
- Tölfræðilegt gildi, þarna má sjá umfang vegakerfissins á hálendinu, síðan má ræða hvað sé nauðsynlegt og hvað ekki.
- Þegar hinn óbreytti ferðamaður kemur á sínu farartæki að slóða, sem liggur sem afleggjari af vegi eða öðrum slóða, og veltir fyrir sér hvort megi aka hann, þá er hægt að fjarlægja allan vafa, með því að merkja hann á þar til gerðan máta í GPS tæki viðkomandi. Ég vil að gefnu tilefni taka það fram að akstur utan vega og akstur á lokuðum vegi er ekki það sama. Sjálfsagt má tala um utan vega akstur sé viðkomandi slóð horfin í tímans tönn.
- Vísindarannsóknir, smölun og annað. Þarna eru til slóðar, sem reynt er að láta hverfa til sinna forfeðra, en jafnframt hægt að nýta þá teljist ástæða til að komast að einhverju sem er nálægt slóðanum, með því má draga úr nauðsynlegum utan vega akstri af völdum þessara hópa. Það er staðreynd að á Íslandi eru margir hópar sem mega aka utan vega í lögbundnum tilgangi og þá getur verið gott að hafa aðgengi að gagnagrunn sem listar þá slóða sem til eru, þá er hægt að forðast óþarfa myndum nýrra slóða.
Þetta eru nokkur atriði sem kemur mér í hug, sjálfsagt eru þau fleiri, og endalaust má ræða um ágæti þeirra. Mér þykir þetta þó nokkuð sterkir punktar varðandi málefnið.
Mín ósk er sú að með tímanum verði til heilsteyptur gagnagrunnur yfir vegakerfi landsins sem hægt er að nýta í fjölþættum tilgangi, sem og að með að setja þennan gagnagrunn á netið opinn öllum megi fá heilnæma umræðu um slóðamál á hálendi, einstaka slóða og að sjá sterk rök bæði með og á móti lokunum. Þessi umræða þarf að vera opin, það þurfa sem flestir að geta lagt orð í belg svo að raunveruleg og almenn niðurstaða náist í þessi mál. Ég vona einnig að með þessum gagnagrunni aukist almenn vitund á hvað sé leyfilegt að aka og jafnvel að utan vega akstur minnki. Mín ósk væri að utan vega akstur þar sem landspjöll hljótast af, verði horfinn af landinu innan nokkurra ára.
Ég hef sjálfsagt ekki komið að öllum atriðum sem snúa að þessu máli, og á eftir að íhuga þetta meira, og eflaust skrifa meir um það hér.
Að lokum, hér er slóðin á gagnagrunn f4x4.
Hvað er ferill?
Góð spurning, fyrir almenning er þetta orð frekar óþjált og kannske lítill skilningur lagður í það.
Ferill (e. track) er leið, sem er mæld með GNNS (GPS) tækni og færð yfir á tölvutækt form. Ferill sýnir ákveðna leið, punkt fyrir punkt með að öllu jöfnu stuttum tíma eða fjarlægð milli hvers punktar.
Með öðrum orðum er þetta skrá eða hluti úr skrá sem geymir upplýsingar um hvar var ekið. Með nútíma GNNS (GPS) tækni má auðveldlega mæla með mjög mikillri nákvæmni staðsetningar. Ferlasafn F4x4 er geymt í GDB sniði, eða Garmin DataBase file.
Til að hafa aðgengi að þessum skrám þarf að hafa Garmin Mapsource eða viðlíkan hugbúnað sem styður GDB skráarsniðið (útgáfu 3). Sértu með Mapsource og getur ekki opnað viðkomandi skrá, getur verið að þú þurfir að uppfæra það. Að ég held, má nálgast Mapsource á heimasíðu Garmin. Þetta forrit a.m.k. fylgir öllum GPS tækjum frá Garmin og var til einhvers tíma fáanlegt á vefsíðu Garmin.
Jæja, nóg í bili. Öll gagnrýni er vel þegin, og má hafa samband hér í ummæla kerfinu á síðunni eða á netfangið samuel hjá ulfr.net
Ég vil taka það fram að öll ummæli eru ritskoðuð, upp að vissu marki, sé það málefnalegt fær það að fljóta í gegn, öll meiðyrði eru afþökkuð pent.