Umræðan um ferlasafnið

Sitt sýnist hverjum um ágæti þessarar ákvörðunar Ferðaklúbbsins 4×4 að birta ferlasafn sitt á vefnum. Mögulega má deila um ágæti þess, en mér þykir rökin með því sterkari en rökin á móti.

Ýmsar greinar hafa birst á mbl.is sem og fleiri miðlum, með afar lágkúrulegum ásökunum ráðherra og umhverfisstofnunnar í garð F4x4.

Sjá má á grein mbl.is þar sem Umhverfisstofnun lætur þau orð falla að þarna séu hættulegar og bannaðar leiðir. Þetta tel ég afar varhugaverð orð, hálendið í heild sinni er hættulegt að vissu marki, og hvaða rétt telur UST sig hafa að meina fólki að fara leiðir sem geta talist hættulegar? Forræðishyggjan í hámarki. Ég get í fljótu bragði bent á leiðir sem eru opnar almenningi sem eru hættulegar.

  • Þórsmerkurleið – Þarna eru margar varhugaverðar ár að fara yfir og auðvelt er að lenda í vandræðum ef menn sýna ekki ýtrustu varúð.
  • Sprengisandur – Þarna geta veður orðið válynd, nokkur vöð eru á leiðinni sem geta orðið varhugaverð sér í lagi fyrir þá sem ekki eru vanir fjallaferðum.
  • Fjallabaksleiðir syðri og nyrðri.

Hitt er svo annað mál að vissulega eru lokaðar leiðir þarna inni, enda á þessu grunnur að sýna landið eins og það er, upp mælt. En ekki landið eins og við viljum hafa það, sú vinna er í framkvæmd og mun þessi gagnagrunnur uppfærast með tíð og tíma, en það fer svolítið eftir því hve mikinn tíma menn geta lagt í þetta verkefni sem og hve samstarfsfúst ráðuneytið er í þessum efnum.

Ferðaklúbburinn 4×4 vill nefnilega fá alla þá sem hafa áhuga á málefninu til að skipta sér af og koma með röksemdir með og á móti lokunum.

Orð umhverfisráðherra eru afar óábyrg ef marka má frétt mbl.is um málið. Þar má sjá að skilningur Svandísar á málinu virðist takmarkaður.

„Maður veltir fyrir sér hvernig þeir sjá sína aðkomu að þeirri vinnu ef þeir telja það vera rétt í ljósi þess að samráðið er í gangi að dengja fram þessum slóðum sem meðal annars hafa verið lokaðir áratugum saman.“

Þarna talar hún um að samráð sé í gangi. Þrátt fyrir þá staðreynd að F4x4 hefur verið ítrekað ýtt frá þessu samstarfi. Einnig talar hún um vegi sem hafa verið lokaðir svo áratugum skipti, sú staðreynd má vel eiga við á ákveðnum leiðum, en er alls ekki algilt. Einnig má benda henni á að þó að leið sé lokað, er hún enn til staðar í landinu og þessi grunnur sýnir landið eins og það er, ekki eins og einhverjir aðilar kysu að hafa það.

Ég hef sennilega ekki minnst nógu oft á það að í svona grunni á að merkja alla slóða og vegi, sama hvers eðlis þeir eru, Síðan á að merkja hvað er lokað, og hvað ekki. Margir þessa slóða sem minnst er á að séu lokaðir eru hreint ekki lokaðir, þeir eru bara lokaðir í hugum ráðuneytisins. Að líta þetta sem ögrun í hennar garð er sennilega bara rétt, F4x4 er að reyna að ýta á ráðuneytið með meira samstarf. Þó þykir mér hún taka þetta full persónulega og reynir að draga umræðuna niður á lægra plan.

Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu málsins á faglegum grundvelli, persónulega hef ég engan áhuga á endalausum sandkassaleik í fjölmiðlum. Það verður vonandi meira um upplýsingaflæði á þessum vettvangi eftir að öldur fara að lægja. Það er nefnilega staðreynd að það verður allt logandi í illdeilum fyrst um sinn, þar til fólk róast og fer að sýna hvoru öðru meiri skilning á málefnum annars. Ég held að ég megi fullyrða það að F4x4 er ekki hópur villimanna sem geti ekki tekið þátt í uppbyggjandi starfi í þágu náttúrunnar.

This entry was posted in Almennt and tagged , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *