Svipu- og leðurviðgerðir

Ég hef undanfarin ár verið að dunda mér við leðurvinnu og svipugerð. Þetta er aðalega búið að vera lítið áhugamál hjá mér en þar sem svipueign hefur stóraukist undanfarin ár á Íslandi, og smávegis vakning virðist vera fyrir þessu stórskemmtilega áhugamáli, hef ég ákveðið að auglýsa það hér með á síðunni minni að ég get tekið að mér viðgerðir á svipum.

Þetta felst sérstaklega í því að lagfæra slitin föll, skipta um smella (e. crackers / poppers) og annað sem getur komið fyrir svipurnar.

Ég er bæði með kengúruleður sem og hefðbundna ungnautahúð til að bæta í og svo hef á ég til mikið af smellum úr nylon.

Það er mjög mikilvægt að skipt sé um slitna smella áður en þeir eyðileggjast algjörlega, þar sem smellurinn er gerður til að hlífa fallinu og fallið er gert til að hlífa þvengnum á svipunni. Sé ekki skipt um smell og fall tímanlega er hætta á að þvengurinn skemmist og þá eykst kostnaðurinn við viðgerð mjög mikið.

Einnig vil ég minna svipueigendur á að það þarf að hugsa vel um svipuna. Meðfylgjandi eru nokkrir punktar sem geta lengt líf svipunnar svo um munar.

  • Gæta þess að raki myndist ekki í svipunni.
  • Ef svipan verður rök, þá verður að hengja hana upp til þerris sem fyrst, það skal gert með því að hnýta girni utan um fallið eða smellinn og láta hana lafa beina niður með skeftið á gólfinu.
  • Bera reglulega feiti eða matarolíu á svipuna. Best er að nota mjúka feiti (ekki skófeiti!!!!) sem hefur sem minnst af bætiefnum.
  • Fallið og endinn á þvengnum er sá hluti sem þarf að bera hve oftast á, restin af svipunni þarf ekki eins mikla feiti.
  • Skipta um smella áður en þeir eyðileggjast algjörlega.
  • Ekki nota svipuna á hörðu undirlagi nema maður sé klár á að halda henni á lofti, það er slæmt þegar svipan dregst eftir hörðu undirlagi.
  • Aldrei, ALDREI slá svipunni í jörðina, harðan vegg eða annað þannig að þvengurinn sjálfur og fallið snerti. Auðvelt er að skipta um smellinn og það er sá hluti svipunnar sem á að verða fyrir hnjaski, ekki þvengurinn eða fallið.
  • Ekki geyma svipuna í raka, vöðlaða saman á einhvern hátt. Svipur eiga að hanga uppi eða vera hringaðar fallega saman.

Þessi ráð ættu að tryggja betri endingu svipunnar.

Sértu með svipu sem þarfnast viðgerðar  þá getur þú haft samband við mig á samuel@ulfr.net eða í síma 848-2317, eins ef þig vantar smella (e. crackers) eða önnur ráð. :)

This entry was posted in Svipur and tagged , , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *