Af múslimum og mönnum…

Eftir að hafa fylgst með umræðunni í aðdraganda kosninganna nýafstaðinna, og öllu hafaríinu í kringum byggingu mosku í Reykjavík, get ég ekki orða bundist, og hreinlega verð að koma þessu frá mér á ritað mál.

Til að byrja með, ég er ekkert sérlega hrifinn af Íslam. Ekkert frekar en ég er hrifinn af Kristni, eða hvaða öðru trúarbragði sem mönnum dettur í hug að finna upp á hverjum tíma. Helst get ég umborið Ásatrú og Búddisma, en þó með trega, enda eru svartir blettir á sögu hvoru tveggja. Samanber tengingu ásatrúar við nasisma og þjóðernishyggju og það að öfgakenndir Búddistar hafa framið þjóðarmorð í nafni trúar sinnar… Hversu kaldhæðnislegt sem það kann að hljóma.

Íslam er ekkert verri trú en hver önnur, vandamálið við hana hinsvegar er að hún er rituð af mönnum misgóðum. Í gegnum aldanna rás hafa orðið til ýmsar viðbjóðslegar reglur og lög sem haldið er fast í og móta þar með samfélög um allan heim. Má þar nefna nauðungagiftingar ungra stúlkna, kvenfyrirlitningu og almenn mannréttindabrot. Þetta á líka við um fleiri trúarbrögð, ef við skoðum söguna aðeins, þá er kristinndómur ekki beint með góða einkunn hvað mannréttindi og kærleik varðar, sem er einnig dálítið kaldhæðnislegt.

Að halda í mannréttindi og góða siði er eitthvað sem allir ættu að reyna eftir fremsta megni, og að breyta ríkjum sem teldust vond, yfir í eitthvað sem telst vera gott. Til að skilja betur muninn á góðum og vondum ríkjum er gott að lesa þennan stórfína pistil frá Pawel. Hann listar þetta nokkuð vel.

Að neita ákveðnum trúarhópum umfram aðra um að byggja sér bænahús getur aldrei talist vera mannréttindi, það er nær fasisma en nokkuð annað. Hvort trúfélög eigi að fá úthlutað lóðum ókeypis er önnur umræða og á ekkert skilt við það hvort trúfélög yfir höfuð eigi að fá að byggja á ákveðnum stað eður ei. Þegar stjórnmálaflokkur fylkir liði undir þeim merkjum að ákveðnum trúarhópum skuli mismunað, n.b. jafnvel með atkvæðagreiðslu borgara, þá má leiða því að líkum að slíkur flokkist hallist á fasískar skoðanir. Fyrir utan það að meirihluti sem brýtur á minnihluta, er ekki lýðræði, heldur þjóðfélagslægur fasismi. Sem er í eðli sínu enn verra en flokkslægur fasismi, og býður hættunni heim á að úr verði öfgakenndir atburðir á við þá sem gerðust í þýskalandi á árunum fyrir seinni heimstyrjöld.

Af málfrelsi og skoðanafrelsi.

Það er allt í lagi að hafa vonda skoðun, og það er allt í lagi að hafa góða skoðun. Hinsvegar þegar ráðist er með persónuníði eða hótunum gagngert gegn ákveðnum einstaklingum eða hópum, þá getur slíkt tæplega talist til málfrelsis. Enda fylgir málfrelsi ábyrgð. Að skaða mannorð eða vega að mannorði einhvers, þarf að gerast að vel ígrunduð máli og hafa föst rök. Annað er mannorðsmorð. Það virðist, því miður sem svo, að mörgum þeim sem hafa sterkar skoðanir gegn Íslam eða íslamistum, gangi illa að sjá þarna á milli og fara með málfrelsi eða skoðanafrelsi sitt.

Ég sé ekkert að því per se að gagnrýna öfgafulla múslima eða ríki sem viðhalda múslímskri trú á öfgakenndu ‘leveli’, ekkert frekar en ég sé neitt að því að gagnrýna harðstjórnarríki eða önnur ríki sem teljast til “vondra” ríkja. Hvort sem þau eru kristin, íslömsk eða af öðrum toga.

Það sem ég sé að er að múslimar sem vilja reisa hér bænahús fái jafn viðamikinn skít frá fólki sem telur sig vera mannréttindasinna.

Fyrir mér mætti vera búið að banna öll trúarbrögð, kukl og önnur hindurvitni fyrir löngu, en það þætti mér þó fasismi, og þar tekst réttlætiskennd mín á við fasistann í mér. Fólk hefur alveg rétt til að trúa á drauga á himnum, eða drauga á jörðinni, eða forfeður, eða góða siði. Það skiptir ekki máli, en við eigum öll að hafa rétt á því að trúa því sem við viljum. SVO LENGI SEM ÞAÐ SKAÐAR EKKI AÐRA! Þetta virðist vera grundvallarmisskilningur hjá “þjóðernissinnuðum” einstaklingum, og þar byrjar einmitt fasisminn.

Svo ég vitni í orð þess mikla spekings, Yoda.
Ótti leiðir af sér reiði.
Reiði leiðir af sér hatur.
Hatur leiðir af sér þjáningar.

This entry was posted in Almennt and tagged , , , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *