Skattur eða dauði.

Fyrir einhverjum mánuðum póstaði ég stöðuuppfærslu á facebook.com þar sem ég var með einhverjar hugleiðingar varðandi útdeilingu skattekna innan ríkissjóðs.

Hann var á þessa leið:

Ok. Nú er ég með hugmynd. Í stað þess að ríkisstjórnin fái að velja í hvað skattarnir fari, þá tökum við upp nýtt kerfi. Hluta af skatttekjum er ráðstafað í fjárlögum, og hinn hlutinn er ráðstafaður af einstaklingum í þjóðfélaginu. Þá gæti ég t.d. valið að ég vildi að 10% færi í menntamál, 10% í heilbrigðiskerfi, 3% í vegakerfi og svo framvegis. Með því gæti ég eytt mínum skatttekjum í eitthvað sem skiptir *mig* mestu máli og þar með yrði annaðhvort til eitthvað absúrd þjóðfélag með góða vegi og enga heilbrigðisþjónustu eða þjóðfélag með lýðræðislegri dreifingu skatttekna.

Er ég galinn?

Ég fór að pæla meira í þessu, og þeim mun meira sem ég pæli í þessu þeim mun sannfærðari er ég að þetta sé alls ekki svo galin hugmynd. Við gætum sett upp einfalda skattflokka til að byrja með. T.d. notað flokkun ráðuneyta og þeirra málflokka. Síðan gætum við deilt því þannig að Alþingi ákveður 50% á fjárlögum og restin yrði síðan ákveðin af þeim sem velja síðan þann málaflokk sem þeir vilja styðja. Það mætti jafnvel ganga ennþá lengra, og leyfa fólki að velja sérstök málefni innan hvers ráðuneytis og í raun er hægt að sundurliða niður í hið óendanlega. Þeir sem vildu þá eyða miklum tíma í að flokka þetta niður gætu dundað sér við slíkt, á meðan hinir, sem vilja t.d. bara velja “heilbrigðismál” eða “vegamál” (svo ég noti þessa flokka áfram sem dæmi) myndu þá haka við það. Aðrir sem vildu sundurliða meira, gætu þá valið t.d. “1%” við tækjakaup á Landspítalanum og síðan t.d. “3%” við lagningu nýrra reiðhjólastíga eða álíka.

Þeir sem ekkert veldu væru ekkert að hafa áhrif á kerfið að öðru leiti en það að hundsa lýðræðislegar skyldur sínar sem þegns í þessu ágæta þjóðfélagi. Þeirra val færi bara í “óráðið” og væru þá í raun viðbót við þau 50% sem Alþingi ákveður. Þetta kann að hljóma flókið í útreikningum en ég er ekkert svo viss um að á þeirri tölvuöld sem við lifum á í dag yrði þetta vesen. Byrjunin gæti verið dáldið strembin og erfið fyrir þá sem þurfa síðan að reikna allt saman, en ef góður algrímur finndist fyrir samlagninguna á milli hluta sem einstaklingar ákveða, ætti þetta að tryggja meiri sanngirni.

Auðvitað er hætta á því að við séum að opna einhverskonar pandórubox, en ég er ekki svo viss um að það yrði raunin ef kerfið yrði úthugsað nógu vel. En þetta er auðvitað ekki eitthvað sem myndi gerast fyrir næsta ár þó byrjað yrði að vinna að þessu, en framtíðin er meira þegnalýðræði og minna fulltrúalýðræði.

This entry was posted in Almennt and tagged , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *