Sítt hár / Stutt hár / hommar og stelpulegir strákar

Það hefur ekki verið neitt leyndarmál að ég hef verið síðhærður í hátt í 11 ár. Sumpartinn af því að mér fannst það þægilegt, sumpartinn af því að mér fannst það kúl, en aðalega af því að mér fannst ég alltaf hálf asnalegur með stutt hár. En hvað um það, þessi pistill er ekki um það hvernig tíska mín er, eða hvort ég vilji vera með stutt eða sítt hár. Þessi pistill er um homma og stelpulega stráka. Nánar tiltekið: Fordóma.

Ég álpaðist til að láta plata mig að ég liti kannske ekki svo illa út með stutt hár, svona rétt uppúr áramótunum, og þar sem ýmsar breytingar hafa verið í gangi í lífi mínu undanfarið ákvað ég að slá til, og ekki það að ég hafi ekki velt þessu fyrir mér sjálfur. Ég gæti allt eins safnað hári aftur ef mér litist ekki á það. Svo ég klippti mig. Eða réttara sagt, fékk móður mína til að klippa mig, enda kann ég varla að klippa út úr pappír, hvað þá annað…

Síðan þá hef ég fengið allskyns undarleg “komment” á útlit mitt, sumt örugglega vel meint, og þó?

  • “Mikið lítur þú vel út svona með stutt hár” – Leit ég þá svona illa út með sítt hár? Well fuck you too.
  • “Þú ert loksins orðinn eins og karlmaður” – Takk. Ég s.s. var eins og kvenmaður áður fyrr, og er það endilega slæmt? Eru kvenmenn eitthvað verri en aðrir?
  • “Það er allt annað að sjá þig, það er eins og þú hafir yngst um 10 ár” – Tja, nei? Eru það ellimerki að vera með sítt hár?
  • “Þetta er mikið betra hjá þér, lítur ekki út eins og stelpustrákur!” – eh?
  • “Mikið ertu nú mannalegur með svona stutt hár, þú ert bara allt annar maður!” – Nei, ég er ennþá sami ég, bara með stutt hár.
  • “Þú varst alltaf svo hommalegur með sítt hár” – Eins og hommar séu verri en aðrir? Og hvaða máli skiptir það þig þó ég væri hommi?

Ég fattaði ekki alveg hversu miklum fordómum ég varð fyrir með sítt hár, fyrren ég klippti mig. Ég áttaði mig heldur ekki á hversu miklir fordómar eru gagnvart fólki, bara fyrir það hvernig það lítur út, þó að munurinn sé ekki mikill, ég meina, sítt hár / stutt hár, hverju skiptir það? Þetta er eins og að drulla yfir einhvern af því að viðkomandi fæddist óvart sem stelpa, eða afþví að viðkomandi vex ekki grön, eða hvað annað sem þér gæti þótt að viðkomandi…

Fyrir hvert svona “komment” missi ég nokkurnveginn alla virðingu fyrir viðkomandi. Svo ef þú ert eitt af þessum fíflum sem heldur að strákar eigi að vera með stutt hár og klæðast gallabuxum, og stelpur skuli vera með sítt hár og klæðast pilsum, þá ertu pottþétt einstaklingur sem ég mun fyrirlíta. Ef þú heldur að þú hafir verið að “hrósa mér” eins og sumir hafa sagt, þegar ég hef imprað á þessu við þá, þá ertu alveg jafn mikið fífl og þeir sem ég nefndi hér að ofan, þú bara skilur ekki þína eigin fordóma. Verstir eru þó þeir sem algjörlega afneita að um fordóma hafi verið að ræða, við þá hef ég ekkert að segja.

Að öðru leiti hef ég ekkert um þetta mál að segja.

This entry was posted in Almennt. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *